Lífstíll okkar flestra einkennist af meiri streitu en æskilegt er. Við gefum okkur oft lítinn tíma til að hvílast, líta inn á við og eiga djúp og innileg samskipti við annað fólk. Þegar við upplifum átök innra með okkur og í umhverfi okkar getur friður virst sem fjarlægt og jafnvel óraunhæft ástand. Sífellt fleiri hafa gripið til þess ráðs að stunda íhugun reglulega og finna þar mótvægi gegn streitunni. Margar mismunandi íhugunaraðferðir eru til og ein af þeim er Kyrrðarbæn (Centering Prayer). Kyrrðarbæn er íhugunaraðferð úr kristinni hefð og hefur verið iðkuð í einhverri mynd frá frumkristni.
Kyrrðarbæn er afar einföld iðkun sem gengur út á að hvíla í nærveru Guðs og samþykkja verk heilags anda innra með okkur. Þó aðferðin sé einföld hefur hún umbreytandi áhrif á iðkandann með auknum andlegum þroska sem leiðir m.a. til aukinnar sjálfsþekkingar og dýpra sambands við Guð og menn.
Jesús sagði: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður.
Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“. Jóh.14.27
Bylgja Dís Gunnarsdóttir