silhouette photo of man leaning on heart shaped tree

Photo by Rakicevic Nenad on Pexels.com

Bænahópur sem hittist á mánudögum í Guðríðarkirkju kl. 17:30 – 18:30 byggir á hinni kristnu íhugunarbæn—Kyrrðarbæn (Centering prayer). Leiðbeinandi er Sigurbjörg Þorgrímsdóttir djáknakandídat og leiðbeinandi Kyrrðarbænarinnar. Sigurbjörg veitir nánari upplýsingar í síma 861-0361 og á netfanginu felagsstarf@grafarholt.is. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Nánari upplýsingar um kristna íhugun má finna á heimasíðu samtakanna, www.kristinihugun.is.

Íhugunarbæn

Við kunnum að hafa þá hugmynd um bæn að hún sé hugsanir eða tilfinningar sem við tjáum með orðum. En það er aðeins ein tegund bænar. Í kristinni hefð hefur Íhugunarbæn verið talin einskær gjöf Guðs. Í henni opnast hugur okkar og hjarta, öll vera okkar, fyrir Guði, hinum Æðsta Leyndardómi, handan hugsana, orða og tilfinninga. Fyrir náð verðum við meðvituð um Guð, sem við vitum fyrir trú, að er hið innra með okkur, nálægari okkur en andardráttur okkar, nær okkur en hugsanir okkar, nær okkur en svo að við ráðum nokkru um það, nær en okkar eigin vitund.

Kyrrðarbæn (Centering Prayer)

Kyrrðarbæn er aðferð sem er til þess ætluð að stuðla að Íhugunarbæn með því að búa hæfileika okkar undir að taka á móti þeirri gjöf sem hún er. Hún er tilraun til að kynna forna fræðslu með nútímalegum hætti. Kyrrðarbæn er ekki ætlað að koma í stað annarra bæna, heldur varpar hún miklu fremur á þær nýju ljósi og dýpkar skilning okkar á þeim. Í henni felst hvort tveggja í senn; samband við Guð og sjálfsagi til að varðveita það samband. Með þessari bænaaðferð hverfum við frá samtali við Krist til samveru með honum.

Guðfræðilegur bakgrunnur

Eins og í öllum aðferðum sem leiða til Íhugunarbænar er uppspretta Kyrrðarbænarinnar Heilög þrenning: Faðir, Sonur og Heilagur andi í okkur. Kyrrðarbænin miðar að því að dýpka samband okkar við hinn lifandi Krist. Hún leiðir gjarnan til myndunar trúarsamfélaga þar sem meðlimir bindast gagnkvæmum vina- og kærleiksböndum.