Ljóðskáldið Mary Oliver lést 17. janúar síðastliðin 83 ára að aldri. Hún hlaut m.a. Pulitzer Prize verðlaunin fyrir skáldskap sinn og var þekkt fyrir að vera hreinskilin og beinskeitt í ljóðum sínum. „Ég gæti ekki ort án náttúrunnar,“ skrifaði hún. „Einhverjir gætu það. En ekki ég. Fyrir mér eru dyrnar inn í skóginn eins og dyrnar inn í musterið.“
Mary skrifaði um viðkvæm augnablik og mannlega tilvist af mikilli innsýn og höfðar gjarnan til þeirra sem iðka íhugun. Gyrðir Elíasson hefur þýtt nokkur ljóð eftir hana og hér að neðan er ljóðið Þegar dauðinn kemur í þýðingu hans. Þar sem ég get ekki þýtt eins vel og Gyrðir læt ég fylgja með tilvitnun í Mary óþýdda þar sem hún talar um ljóð:
“For poems are not words, after all, but fires for the cold, ropes let down to the lost, something as necessary as bread in the pockets of the hungry.”
Þegar dauðinn kemur
Þegar dauðinn kemur
einsog hungraður björn að hausti;
þegar dauðinn kemur og tekur alla
glóandi peningana úr buddu sinni
til þess að kaupa mig, og lokar síðan
buddunni með smelli; þegar dauðinn
kemur einsog mislingarnir
þegar dauðinn kemur
einsog ísklumpur milli herðablaðanna
mig langar að stíga inn um dyrnar
full af forvitni, hugsa: hvernig ætli
það sé, þetta hús myrkursins?
Og þess vegna lít ég á allt sem
bræðralag, sem systralag,
og ég lít á tímann aðeins sem hugmynd,
og ég íhuga eilífðina sem annan möguleika.
Og ég hugsa um hvert líf sem blóm, jafn
algengt og akurlilju, og jafn einstakt,
og sérhvert nafn kliðmjúk tónlist á vörum
og vísar, einsog öll tónlist gerir, í átt til
þagnarinnar,
og sérhver látinn er sem hugprútt ljón
og jörðinni svo dýrmætur.
Þegar lokin koma, vil ég geta sagt
að allt mitt líf hafi ég verið brúður
sem giftist undruninni.
Að ég hafi verið brúðgumi sem tók
heiminn mér í fang.
Þegar lokin koma, vil ég ekki þurfa að
velta því fyrir mér hvort ég hafi gert
eitthvað sérstakt úr lífi mínu, og
raunverulegt.
Ég vil ekki verða andvarpandi
og skelfd eða full gremju.
Ég vil ekki að það endi einfaldlega
svo að ég hafi aðeins verið gestur
á þessari jörð.
(Bylgja Dís Gunnarsdóttir)