LECTIO DIVINA
Kyrrðardagar ásamt námskeiði í Lectio Divina (Biblíulegri íhugun) verður haldið á Löngumýri í Skagafirði dagana 10.-13. október 2024.
Kyrrðardagarnir og námskeiðið hentar þeim sem vilja auðga trúarlíf sitt og þá sérstaklega í tengslum við bæn, íhugun og lestur ritningarinnar. Námskeiðið hentar jafnt byrjendum sem lengra komnum.
Lectio Divina er bænaaðferð sem hefur verið iðkuð frá frumkristni og tilheyrir hugleiðsluhefð kristinnar trúar. Íhugandi lestur Lectio Divina gengur út á gæði umfram magn og að fara á dýpt textans með opinn huga og opið hjarta. Kjarni Lectio Divina er vinátta við Krist og því er um afar persónulega bænaiðkun að ræða þar sem ritningarversin leggja grundvöll að samtali sem smátt og smátt leiðir til náinnar og innilegrar vináttu.
Auk þess að ástunda Lectio Divina með hefðbundum hætti verður kynnt til leiks hvernig nota má aðferðina á fjölbreyttan hátt m.a. í tengslum við myndir, tónlist og náttúruna. Kyrrðarbænin verður iðkuð tvisvar á dag og hluti helgarinnar fer fram í þögn. Námskeiðið byggist á þátttöku.
Langamýri er fræðslusetur Þjóðkirkjunnar og þar er gott að vera. Matsalurinn er rúmgóður og bjartur, setustofan notaleg og kapellan falleg. Í garðinum er bæði sundlaug og heitur pottur. Innifalið auk námskeiðsins eru 3-4 máltíðir yfir daginn og sérherbergi (einnig hægt að vera 2 saman í herbergi). 2-3 herbergi sameinast um baðherbergisaðstöðu.
Leiðbeinendur námskeiðsins eru hjónin Bylgja Dís Gunnarsdóttir og Henning Emil Magnússon. Bylgja Dís starfar sem æskulýðs- og upplýsingarfulltrúi Hafnarfjarðarkirkju og er auk þess nemandi í andlegri fylgd hjá Leadership Transformations Inc. Henning Emil starfar sem prestur í Lágafellsprestakalli en hann er einnig kennaramenntaður og starfaði sem kennari um árabil. Bylgja Dís og Henning Emil hafa á undanförnum árum kynnt sér hugleiðsluhefð kristinnar trúar og iðka úr þeim ranni Kyrrðarbæn, Lectio Divina og Fagnaðarbæn og eru með kennsluréttindi í þessum bænaaðferðum frá Contemplative Outreach Ltd.
Verð: 69.800 kr.
Skráning: https://kyrrdarbaen.skramur.is/input.php?id=22
Vinsamlegast hafið samband ef spurningar vakna við Bylgju í síma 661 7719 eða með því að senda tölvupóst á kyrrdarbaen@kyrrdarbaen.is.
Umsagnir frá fyrrum námskeiðum
Ég sótti námskeið í Skálholti með Bylgju og Henning. Námskeiðið veitti mér góða sýn inn í biblíulega íhugun. Þau komu efninu vel til skila og ég var mjög ánægð með það. Ég gef þeim báðum góð meðmæli og hlakka til að mæta á fleiri námskeið hjá þeim.
Ég tók helgarnámskeið í biblíulegri íhugun hjá þeim Bylgju Dís og Henning Emil í ágúst 2023. Námskeiðið var í alla staði vel skipulagt og framkvæmt. Það gaf þátttakendum góða innsýn í rætur og eðli biblíulegrar íhugunar og kyrrðarbænar gegnum fyrirlestra og verklegar æfingar, bæn og hugleiðingu. Þeim Bylgju og Henning fórst hlutverk leiðbeinandans einkar vel úr hendi en þau leiddu hópinn af öryggi, þekkingu og innsæi frá upphafi til enda. Ég gef þeim sem kennurum í biblíulegri íhugun, og námskeiðinu, mín bestu meðmæli.
Námskeiðið í biblíulegri íhugun hjá Bylgju Dís og Henning var mjög gagnlegt. Þau fóru vel yfir allt og útskýrðu mjög vel fyrir okkur. Áður en ég fór á námskeiðið þá ruglaði ég alltaf saman skrefunum biblíulegrar íhugunar, en ég loksins lærði þau hjá þeim. Að lesa, að hugleiða, svara með bæn og svo hvíla í nærveru Guðs. Þetta komst svo vel til skila og útskýrt vel. Svo fannst mér endirinn á námskeiðinu að vera með náttúru divina upp í Mosfellsdal alveg frábær og ég fékk mikið út úr því.
Ég lærði helling og fékk dýpri skilning á lectio divina. Bylgja Dís og Henning eru mjög góðir og einlægir kennarar og þar af leiðandi er gaman að læra hjá þeim. Takk fyrir gott námskeið.
Dagarnir í Skálholti eru mér mjög dýrmætir. Öll ytri umgjörð var góð, húsnæði og matur. Mismunandi íhugunaraðferðir; sjónræn, náttúru, tónlistar, voru gagnlegar. Kennslustundir voru góðar, samvinna þeirra Bylgju Dísar og Hennings Emils var mjög skýr og bættu þau hvort annað upp. Skýr kennsla og góðar spurningar og umræður, svo efnið komst vel til skila. Fyrir mig voru þessir dagar mjög góðir og ég lærði margt. Ég varð fyrir sérstakri guðdómlegri snertingu á laugardagskvöldinu í tónlistaríhuguninni. Sú snerting var læknandi og hefur eilífðargildi. Mjög gott námskeið sem ég get mælt með fyrir alla.
Námskeiðið var yndislegt og mikill kærleikur umvefjandi og yndislegt sjá hvað Bylgja og Henning voru sem eitt og í takt í allri kennslunni. Þau komu vel frá sér efninu um hvernig hægt er að nota bænaaðferðir á mismunandi vegu með augum, eyrum og hjarta. Ég gef þessu námskeiði mín bestu meðmæli.
Námskeiðið í biblíulegri íhugun var fróðlegt og skemmtilegt. Skipulagið og fræðslan mjög góð. Umhverfið í Skálholti yndislegt. Námskeiðið hefur nýst mér mjög vel í minni andlegu vegferð. Get sannarlega mælt með slíku námskeiði.
Bylgja Dís og Henning glæddu kennsluna á Biblíulegri íhugun fegurð og lífi. Þau komu efninu frá sér á einlægan og auðskiljanlegan máta og efnistök þeirra voru skýr.