Kyrrðarbænaiðkandi deilir upplifun sinni af Kyrrðarbæn og Kyrrðardögum
Ég kynntist kyrrðarbæninni fyrir alvöru 2016 þegar ég skráði mig á kyrrðardaga á vegum Contemplative Outreach á Íslandi. Það er skemmst frá því að segja að ég kynntist sjálfri mér á alveg nýjan hátt. Nú hef ég farið fjórum sinnum á slíka kyrrðardaga og í hvert sinn gerast einhver kraftaverk. Ég sé nýjar hliðar á mér og lífinu. Þar hef ég getað gert upp gamla hluti sem hafa fylgt mér lengi. Að hugleiða í um þrjár klukkustundir á dag og heyra ekki mælt mál inná milli gerir það að verkum að maður heyrir í sér. Ég heyri hvernig innra talið fyllir öll vit þegar hausinn byrjar að reyna að fylla uppí tómarúmið sem myndast þegar allt áreiti er tekið frá manni. Ég finn fyrir lönguninni til að grípa í símann og opna tölvupóstinn. Svo róast allt, og ég tek eftir hugsunum mínum. Það besta sem gerist, það sem mér þykir vænst um en er jafnframt það erfiðasta er sjá hvernig ég tala við sjálfa mig. Hvernig orðanotkunin er, hvernig sögur ég segi mér, orð og sögur sem hafa verið þarna kannski árum saman. Sögur og fullyrðingar sem ég hef sagt mér jafnvel frá barnæsku en aldrei tekið eftir. Þetta hefur allt verið svo sjálfsagt og áreitið í lífinu verið svo mikið að ég hef aldrei stoppað til að spyrja mig hvers vegna ég tali svona við mig, hvort þetta séu mínar skoðanir, hvaðan viðhorf mín koma og hvort þau séu sönn.
Það er erfitt að mæta sjálfum sér. Ég hef prófað aðrar tegundir íhugunar en tengi best við kyrrðarbænina. Sennilega vegna þess að þegar ég mæti sjálfri mér finnst mér gott að vita að ég er ekki ein, ég er ekki ein á þessum stól að hlusta á minn eigin andadrátt. Kyrrðarbænin gengur útá að samþykkja nærveru Guðs. Það að vita að ég dvel í kærleika þegar ég mæti mér gefur mér kraft til að gera nákvæmlega það, að hlusta á mig, horfast í augu við tilfinningar mínar, skoðanir og þá reynslu sem ég á. Í því liggur kraftaverkið, því það er ekki fyrr en ég viðurkenni sannleikann að ég öðlast getu til að breyta. Þegar ég viðurkenni sannleikann get ég horft á hann gagnrýnum augum og spurt mig hvort þetta sé í raun það sem ég vil, hvort þetta séu skoðanir sem ég vil hafa, hvort þetta séu sögurnar sem ég vil segja sjálfri mér.
Það sem dagleg ástundun kyrrðarbænar gefur mér jafnframt er að þegar ég sest niður í byrjun dags þá heyri ég suðið. Ég heyri hverjar áhyggjur dagsins eru, ég veit hvernig ég er stemmd og þá verður dagurinn alltaf allur annar. Ég næ ekki alltaf að sefa áhyggjur eða leysa vandamál en ef ég er illa stemmd, þá veit ég það og get tekið tillit til mín. Ef ég öskra á vitleysingana í umferðinni eða bölva fólkinu í vinnunni (sem kemur fyrir) þá veit ég hvaðan það kemur, af því að ég heyrði í mér þann morguninn og veit hvaða innra ójafnvægi ég tók með mér út í daginn. Ég get líka fundið fyrir návist Guðs í deginum, ég skil hann ekki eftir á stólnum. Ég sé hann oftar í því sem er að gerast og veit hann er þarna þegar eitthvað kemur uppá. Það er ómetanleg gjöf.
Höfundur vill ekki láta nafns síns getið.