Stormviðri hugans – Vangaveltur um áföll og sorgir Jobs í tengslum við núvitund eftir Dag Fannar Magnússon
Núvitund er, eins og kannski mörgum er kunnugt, listin að lifa meðvitaður í núinu. Það er að segja að veita umhverfi sínu, tilfinningum og hugsunum eftirtekt án þess að leggja á þær dóm. Það er að segja maður dvelur í núinu og reynir að stöðva flæði hugsanna sem reika á milli fortíðar og framtíðar. Þegar hugsanir og tilfinningar sækja á mann er markmiðið að leyfa þeim að fljóta í burtu. Job var maður sem getið er um í Gamla testamentinu. Hann var réttlátur og góður, fylgdi lögmálinu og færði fórnir.
Á tíma Jobs trúðu menn á svokallaða endurgjalds kenningu. Sú kenning þekkist einnig undir hugtakinu karma og kemur úr austrænum trúarbrögðum. Kenningin gengur út á að sé maður réttlátur og góður muni það koma til manns aftur í hamingjusömu lífi og vellystingum en sé maður ranglátur, vondur og syndgi þá muni það sannarlega bíta mann í rassinn. Samkvæmt sögunni var Job í hópi réttlátra og trúfastra manna en lenti í því að missa börnin sín öll í einu, búfénaðnum var öllum rænt og eins og þetta væru ekki nægileg áföll þá varð hann holdsveikur ofan í þetta allt saman. Eftir stendur Job allslaus og fárveikur. Hann varð að sjálfsögðu mjög sorgmæddur og harmaði jafnvel þann dag sem hann fæddist. Vinir hans reyndu að telja hann trú um að hann hefði nú sennilega átt þetta skilið en hann hélt nú ekki. Þegar líður á söguna virðist Job þróa með sér mikla reiði í garð Guðs. Job, sem var réttlátur, fannst ekki réttlátt að slíkar hörmungar skildu dynja yfir hann á meðan ranglátir menn gengu um áhyggjulausir.
Endurgjalds kenningin brást honum algjörlega. Við horfum reyndar upp á það enn í dag að endurgjaldið virðist ekki vera algild kenning, reyndar fjarri lagi. Job þjáðist gríðarlega, velti sér upp úr fortíð sinni, fann enga von í framtíðinni og sá ekkert nema svartnættið framundan sem olli þannig frekari áhyggjum, kvíða og jafnvel þunglyndi. Það má því segja að Job þeyttist um í stormviðri eigin huga eins og strá í vindi. Hann náði aldrei fótfestu og ótti við stjórnlausar aðstæður grípur um sig. En sagan segir einmitt frá miklu stormviðri sem Job lendir í. Þegar Job er aðfram kominn vegna þess að hugur hans var aldrei kyrr, það var aldrei ró né friður innra með honum, gerist nokkuð merkilegt, Guð talar til hans úr stormviðrinu.
Stormar, fellibylir og hvirfilvindar eiga það nefnileg sameiginlegt að þeir hreyfast í hringi og í miðjum hringnum er logn. Í samhengi við núvitund og tengslin við Job er nafn Guðs mikilvægt og mjög athyglisvert að það skuli aðeins vera nefnt í tengslum við ræðu Guðs úr strominum. Samkvæmt annari Mósebók er nafn Guðs „Ég er“. Nafnið lýsir því að vera, og að vera hlýtur að fela það í sér að maður sé ekki hangandi á hugsunum og tilfinningum sem draga mann frá því eina raunverulega sem er, sem er núið, andartakið. Hvað var þá að gerast innra með Job? Hugur hans var búinn að vera eins og strá í vindi og skyndilega fellur hann inn í auga stormsins. Auga stormsins táknar hina náttúrulegu kyrrð sem er að finna undir hugsunum og tilfinningum. Job mætti þar Guði sínum og Guð tók til máls. Ræða Guðs snérist fyrst og fremst um sköpunarverkið þar sem hann beinir sjónum Jobs að mikilfengleika sköpunarinnar. Það að vera í sköpuninni og upplifa undur hennar til fulls merkir að maður þarf að vera í núvitund og reyna að hanga ekki í iðrun og sektarkennd fortíðar eða áhyggjum framtíðarinnar. Ef Job stóð í logninu og horfði á tilfinningar sínar og hugsanir fjúka hjá í stormviðrinu allt í kringum lognið gat hann tekið eftir þeim, séð þær og leyft þeim svo að fara. Það varð algjör losun hjá honum en til þess að geta komist í auga stormsins þurfti hann að komast í gegnum fárviðri hugans fyrst. Það er eðlilegt ferli að fara í gegnum storminn áður en maður kemst í lognið. Enginn skyldi efast um að manneskjan þyrfti ekki að þjást. Við munum standa andspænis mannlegri þjáningu og leiðin í átt að frelsun getur verið erfið og ströng.
Til þess að æfa sig í núvitund eru til ýmsar leiðir, sjálfur kýs ég að nota kyrrðarbæn, sem er kristin íhugunaraðferð. Um þessar mundir er ég að prófa að taka íhugun á hverjum degi í hundrað daga og leyfi fólki að taka þátt í þeirri vegferð í gegnum instagram, instagram story og á facebook. Ég veit ekki hvers ég á að vænta á þessari hundrað daga vegferð en til þess er þetta gert, forvitni og leit að andlegri upplyftingu. Ætli það sé svo ekki bara í höndum Guðs hvað úr þessu ferðalagi verður.
Höf. Dagur Fannar Magnússon
Guðfræðingur
Instagram: dagurfm
Greinin er unnin upp úr verkefni höfundar í námskeiði í ritskýringu sálma og spekirita Gamla testamenntisins í Guðfræðideild Háskóla Íslands.