Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu. Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni. Takið þátt í þörfum heilagra. Leggið stund á gestrisni.
Róm. 12.10-13
Þessi ritningarorð koma upp í hugann nú þegar við í Kyrrðarbænasamtökunum minnumst sr. Egils Hallgrímssonar, sóknarprests í Skálholtsprestakalli.
Í mörg ár hafa Kyrrðarbænasamtökin verið með Kyrrðarbænadaga og önnur námskeið í Skálholti og fengið að njóta gestrisni, þjónustu og vináttu Egils á meðan á þeim stóð.
Á Kyrrðarbænadögum er Kyrrðarbænin, sem er þögul bæn, iðkuð og dvölin fer að mestu leiti fram í þögn. Egill leiddi tíðarsöng á morgnana og í eftirmiðdaginn sem hóparnir sóttu í Skálholtsdómkirkju. Egill hafði mjúka barítónrödd og söng tíðirnar áreynslulaust og af næmni fyrir bæði texta og tónmáli svo að unun var á að hlýða. Að rjúfa þögnina tvisvar á dag til að syngja tíðir er áhrifamikið og við erum þakklát Agli fyrir þá alúð sem hann lagði í þessar stundir sem settu í hvert sinn mikinn svip á dvöl okkar á þessum helga stað.
Egill tók okkur alltaf fagnandi og hafði orð á þeirri helgi og þeim kærleika sem bænaiðkuninni fylgdi. Þó að Egill hafi ekki setið með okkur í Kyrrðarbæninni, meðal annars vegna starfa sinna, þá var hann engu að síður með okkur í anda.
Egill hafði eitt sinn lagt leið sína til Snowmass í Colorado en klaustrið þar er andlegt heimili kyrrðarbænaiðkanda um allan heim eins og Skálholt hefur orðið fyrir íslenska iðkendur. Til að fjármagna ferðalagið til Snowmass hafði hann selt mótorhjólið sitt. Thomas Keating, munkur í Snowmass og einn af helstu kennimönnum Kyrrðarbænarinnar, kallaði Egil á sinn fund en Thomas bar sérstakar taugar til Íslands og þráði að sjá kyrrðarbænasamfélagið þar vaxa og dafna. Thomas nefndi við Egill hvort það gæti verið að hann hefði hlutverki að gegna hvað þetta varðaði og að okkar mati þá sinnti hann því hlutverki svo sannarlega.
Dvöl okkar í Skálholti lauk hverju sinni með guðþjónustu þar sem Egill þjónaði fyrir altari. Þar kom berlega í ljós hversu brennandi í andanum hann var. Í hvert sinn snerti hann við hjörtum okkar og hafði einstakt lag á að veita okkur einmitt þá uppörvun sem við þurftum á að halda hverju sinni. Meðal þátttakanda voru oft einstaklingar sem voru ekki vanir að sækja guðþjónustur og höfðu orð á að nú yrði breyting á.
Það er sárt til þess að hugsa að þessi brosmildi, hávaxni og auðmjúki maður taki ekki á móti okkur næst þegar við komum í Skálholt. Minningin um þjón Drottins sem sýndi okkur virðingu og bróðurlegan kærleika lifir áfram. Í hjörtum okkar er einnig sú vissa að hann verði líkt og áður, þegar við setjumst niður í Kyrrðarbæn, með okkur í anda.
Við færum samstarfsfólki Egils og fjölskyldu hans og vinum okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Fyrir hönd Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi,
Bylgja Dís Gunnarsdóttir.