Kyrrðarbæn (e. Centering Prayer) er bæn án orða sem felur í sér að við samþykkjum nærveru Guðs og starf hans hið innra með okkur. Helsti ritningarlegi grundvöllur bænarinnar eru viskuorð Jesú í Matteusarguðspjalli 6.6 en þar segir: „En þegar þú biðst fyrir skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.” Í Samræðum Cassians túlkar Ísak ábóti þennan texta sem boð um að ganga til innri kyrrðar og að vera opin fyrir Guði hið innra með okkur (e. divine indwelling). Kyrrðarbæn, sem aðferð, er grundvölluð á tveimur fyrstu skrefunum í því sem Jesús leggur til: Að sleppa tökunum af ytri kringumstæðum og erli; og að sleppa tökunum, hið innra, af hugsana- og tilfinningaskvaldri. Það er táknað með því að loka á það dyrunum. Að biðja í leynum virðist vera hugtak Jesú yfir það sem síðar varð þekkt í kristinni hefð sem hugleiðsla. Það er augljóslega um þrjú skref að ræða í átt að djúpri, innri kyrrð. Þriðja skrefið á sér stað þegar vitund okkar sameinast Guði í leynum þar sem Hann býr í raun og veru og bíður okkar.
Í Kyrrðarbæninni drögum við athygli okkar í hlé frá hinu venjulega hugsanaflæði. Við höfum tilhneigingu til að samsama okkur þessu hugsanaflæði En það býr meira undir, því djúpt hið innra með okkur er hið andlega svið (e. spiritual level). Kyrrðarbænin opnar augu okkar fyrir þessu djúpstæða sviði veru okkar. Þessu mætti líkja við árstraum þar sem minningar, myndir, tilfinningar, innri reynsla, og vitund um allt hið ytra fljóta. Margt fólk samsamar sig þessu venjulega hugsana- og tilfinningaflæði í svo ríkum mæli að það gerir sér ekki grein fyrir hvaðan það er sprottið. Líkt og bátar og rusl fljóta á yfirborði ár fljóta hugsanir okkar og tilfinningar einnig á einhverju. Þetta eitthvað er hið innra vitundarstreymi þar sem þátttaka okkar í veru Guðs á sér stað.
Kyrrðarbæn snýst um að gefast Guði og játast honum. Hið andlega ferðalag krefst þess ekki að við förum nokkurt því Guð er nú þegar nálægur hið innra með okkur. Málið snýst um að leyfa eigin hugsunum að hverfa úr forgrunninum og fljóta með árstraumi vitundarinnar, án þess að við veitum þeim eftirtekt, á sama tíma og við gefum gaum sjálfri ánni sem ber þær. Við erum þá eins og manneskja sem situr á árbakkanum og horfir á bátana sigla hjá. Ef við einbeitum okkur að ánni fremur en bátunum þroskast hæfileikinn til að láta sig hugsanirnar sig engu varða og smám saman verður til athygli sem kalla mætti andlega árvekni/eftirtekt (e. spiritual attentiveness).
Hugsun, í samhengi þessarar aðferðar, er sérhver skynjun sem birtist á hinum innra skjá vitundarinnar, ef svo mætti að orði komast. Það getur verið hugtak, umhugsun, líkamleg skynjun, tilfinning, mynd, minning, áætlun, utanaðkomandi hávaði, rósemistilfinning eða jafnvel andlegt samband. Hvaðeina sem skráð er á þennan innri skjá vitundarinnar er, með öðrum orðum, „hugsun” í samhengi Kyrrðarbænar. Aðferðin er fólgin í því að sleppa tökunum á sérhverri hugsun meðan á bæninni stendur, jafnvel okkar einlægustu trúarhugsunum.
Með því að iðka þessa bæn daglega þroskast næmi manns fyrir sínum andlega manni og maður getur farið að finna fyrir nærveru Guðs við venjulegar athafnir daglegs lífs. Ef til vill finnur maður sig knúinn til að snúa sér til Guðs hið innra með sér án þess að vita hvers vegna. Það bendir til að andlegt næmi manns sé að þroskast og gera manni kleift að nema bylgjur frá veröld sem maður skynjaðir ekki áður. Maður kemst að raun um að Guð er oft nálægur í dagsins önn og amstri þótt maður sér ekki beinínis að hugsa um Guð. Þessari reynslu má líkja við breytinguna frá svart-hvítu sjónvarpi yfir í litasjónvarp. Myndin er hin sama en hún er auðugri vegna þeirrar nýju víddar sem maður skynjaði ekki áður. Liturinn var til staðar en barst ekki því viðeigandi búnaður til að nema útsendinguna var ekki fyrir hendi. Kyrrðarbæn er aðferð til að stilla sig inn á veruleikasvið sem er ætíð fyrir hendi og okkur er boðið að taka þátt í. Ákveðinn agi er nauðsynlegur til að draga úr því sem kann að hindra að vitundarsviðið víkki út með þessum hætti.
Kyrrðarbæninni er ætlað að leysa okkur frá því venjubundna hugsanaflæði sem styrkir hugmyndir okkar um okkur sjálf og umheiminn. Þessu mætti líkja við að stilla útvarp af langbylgju yfir á stuttbylgju. Maður getur hafa vanist því að hlusta á langbylgjuna, og þær stöðvar sem hún sækir, en vilji maður hlusta á stöðvar í meiri fjrlægð er nauðsynlegt að skipta um bylgjulengd. Á sama hátt er því farið með okkur. Ef við sleppum tökunum af vanabundinni hugsun og tilfinningaskemum opnast okkur algjörlega nýr heimur.
(Úr bók Thomas Keating Open heart, Open Mind s. 19 – 21, 120 – 121)