Kyrrðarbæn

Centering Prayer

Ein af þeim aðferðum sem litu dagsins ljós á 20. öld er Kyrrðarbæn (Centering prayer) en hún byggir á gamalli hefð sem lýst er í bókinni The Cloud of Unknowing sem skrifuð er á 14. öld af óþekktum enskum munki. Kyrrðarbæn er nútíma heiti fyrir þá aðferð sem Jesús talar um í Fjallræðunni. Hann boðar að: „En þegar þú biðst fyrir skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn sem er í leynum“ (Matt.6.6). Í tímanna rás hefur þessi bænar aðferð verði nefnd ýmsum nöfnum eins og t.d. pure prayer, prayer of the heart, prayer of simplicity, prayer of faith o.s.frv. (Thomas Keating).

Kyrrðarbæn er einstök og persónubundin aðferð sem býr okkur undir það að vera opin gagnvart Guði. Henni er ekki ætlað að koma í staðinn fyrir aðrar bænir heldur má segja að Kyrrðarbænin auki dýpt þeirra. Kyrrðarbænin er ekki beiðni til Guðs um eitthvað né heldur úrlausn spurninga eða slökunaræfing. Í henni játumst við nærveru og verkan Guðs innra með okkur. Sá ásetningur getur síðan opnað augu okkar og skerpt athygli okkar á því að skynja nærveru hans á öllum tímum og í allri sköpun hans.

Kyrrðarbænin er ákaflega ljúf nálgun við Guð þar sem orð eru óþörf. Við kyrrum hugann, opnum hug okkar og hjörtu fyrir Guði sem umbreytir okkur í þögninni. Við hlustum eftir og tökum á móti nærveru og kærleiksríkri verkan Guðs í lífi okkar. Kyrrðarbænin er dagleg bænagjörð þar sem Heilagur andi vekur og styrkir tengsl okkar við Guð. Bænin byggir á orðlausri nálgun við Guð, þar sem biðjandinn tekur ákvörðun um að leitast við að opna hjarta sitt fyrir nærveru Guðs og verkan í lífi sínu. Þegar hugsanir eða hvers konar skynjannir trufla okkur í bæninni, sleppum við tökunum á þeim og snúum okkur aftur að Guði.

Þetta er eitt einfaldasta form íhugunarbænar sem um getur og allir geta lært það og stundað. Tilgangur Kyrrðarbænarinnar er sá að dýpka samband okkar við Guð með því að játast nærveru og verkan Guðs innra með okkur í hinu daglega lífi okkar.

I. Veldu þér bænarorð sem tákn um þann ásetning þinn að játast nærveru Guðs og verki hans hið innra með þér.

  1. Bænarorðið tjáir þann ásetning okkar að játast nærveru Guðs og verki hið innra með okkur.
  2. Bænarorðið er valið í stuttri bæn til Heilags anda. Veldu eins eða tveggja atkvæða orð eins og til dæmis:Guð, Jesús, abba, faðir, móðireða amen. Aðrir möguleikar eru elska, hlusta, friður, miskunn, sleppa, kyrrð, stilla, trú, traust o.fl.
  3. Sumum kann að henta betur að líta inn á við til nærveru Guðs eða að gefa gaum að andardrætti sínum. Sömu leiðbeiningar eiga
    við um þau tákn og um bænarorðið.
  4. Bænarorðið er ekki heilagt vegna merkingar sinnar heldur vegna þess að það tjáir ásetning okkar og samþykki fyrir nærveru Guðs.
  5. Við skiptum ekki um bænarorð á bænastundinni því þá erum við farin að hugsa.

II. Komdu þér þægilega fyrir með lokuð augu. Berðu fram orðið, í hljóði, sem tákn um þann ásetning þinn að játast nærveru Guðs hið innra með þér.

  1. „Að koma sér þægilega fyrir“ merkir að láta fara sæmilega vel um sig en þó ekki svo að mann syfji meðan á bænastundinni stendur.
  2. Við erum alltaf bein í baki, sama hvaða bænastellingu við veljum.
  3. Við lokum augunum til merkis um að við sleppum tökunum á því sem á sér stað í kringum okkur og hið innra með okkur.
  4. Við innleiðum bænarorðið eins blíðlega og við getum, líkt og ef fjöður væri lögð á votan bómullarhnoðra.
  5. Ef við skyldum sofna, höldum við bæninni áfram um leið og við vöknum.

III. Þegar við verðum upptekin af hugsunum okkar snúum við okkur ofur blíðlega að bænarorðinu á ný.

1. „Hugsanir” er regnhlífarhugtak yfir hvers konar skynjun, tilfinningar, tilkenningar, ímyndir, minningar, umþenkingar, útskýringar og sértaka andlega reynslu.
2. Hugsanir eru óhjákvæmilegar, inngróinn og eðlilegur hluti af Kyrrðarbæn.
3. Með því að „innleiða bænarorðið eins blíðlega og við getum“ er gefið til kynna að það krefjist lágmarksáreynslu. Þetta er það eina sem við
aðhöfumst meðan á bænastundinni stendur.
4. Bænarorðið getur orðið óljóst eða horfið með öllu eftir því sem líður á bænastundina.

IV. Við höfum augun áfram lokuð í fáeinar mínútur að bænastund lokinni.

1. Þessar auka mínútur (u.þ.b. 2) gera okkur kleift að taka andrúmsloft kyrrðar með okkur inn í hversdaginn.
2. Í bænahópi getur sú eða sá sem leiðir hópinn farið rólega með Faðirvorið á meðan hinir hlusta.

Kyrrðarbænin felur í sér samband við Guð og er um leið aðferð til að rækta það samband. Með þessari bænaaðferð færumst við frá samtali við Guð til samfélags við hann.

Thomas Keating, munkur í reglu Benedikts frá Núrísa.

Kyrrðarbæn er aðferð til að vakna til þess veruleika sem við erum á bólakafi í.

Thomas Keating, munkur í reglu Benedikts frá Núrísa.

Það sem fyrst og fremst veldur aðskilnaði okkar frá Guði er hugsunin um að við séum aðskilin frá honum.

Thomas Keating, munkur í reglu Benedikts frá Núrísa.