Styrktaraðili Kyrrðarbænasamtakanna á Íslandi

Richard McCambly

Richard McCambly, OCSO, munkur í Trappistaklaustrinu St. Josep´s Abbey í Massachusettsríki í Bandaríkjum (sjá nánar um hann á vefsvæðinu www.lectio-divina.org) heimsótti Ísland í fyrsta sinn árið 1976 á ferð sinni fyrir klaustrið til Oxford á Englandi en Thomas Keating var þá ábóti klaustursins. Thomas hafði sem barn í foreldrahúsum íslenska fóstru sem hét Selma Gronvöld. Hún ílengdist í Bandaríkjunum og tók þar upp nafnið Selma Ólafsson. Thomas og Selma voru alla tíð miklir vinir og í góðum samskiptum. Thomas bað Richard um að millilenda á Íslandi í þessari ferð og skila kveðju sinni til náfrænda Selmu, jarðfræðingsins Karl Gronvöld. Sjálfur hafði Thomas aldrei komið til Íslands á þessum tíma. Með góðra manna hjálp tókst Richard að hafa upp á Karli og urðu þeir góðir vinir.

Í þessari fyrstu heimsókn Richards til Íslands hafði hann í farteski sínu myndbönd með Thomasi og fleirum þar sem verið var að kenna undirstöðuatriði Kyrrðarbænarinnar. Richard sýndi nokkrum áhugasömum upptökurnar og skildi þær eftir þegar hann sneri heim aftur. Í kjölfarið átti Richard eftir að koma margsinnis til Íslands til skemmri eða lengri dvalar og erfa ást Thomasar á landinu. Richard kom gjarnan færandi hendi og skildi eftir kynningarefni um Kyrrðarbænina eins og verið var að kenna hana og útbreiða í klaustri hans hverju sinni. Einnig bar hann fréttir af Thomasi sem lét af störfum sem ábóti og flutti sig yfir í Trappistaklaustrið í Snowmass í Colorado. Árið 2000 kom Thomas í fyrsta sinn í heimsókn til Íslands og þá tóku hjólin að snúast. Átta árum síðar kom Richard með föður William Meninger sem hélt fjölda fyrirlestra víða um land en faðir William er einn af stofnendum Contemplative Outreach Ltd ásamt Thomasi og Basil Pennington.

Árum saman sóttu fjölmargir Íslendinga kyrrðardaga í Snowmass og nutu fræðslu Thomasar á meðan hann lifði, en hann lést árið 2018 þá 94 ára að aldri.

Richard MacCambly sáði fræi í íslenska jörð árið 1976, fræi Kyrrðarbænarinnar. Hann hefur borið hug og hjarta til eflingar Kyrrðarbænarinnar hér á landi alla tíð síðan. Í ársbyrjun 2020 afhenti Richard Kyrrðarbænasamtökunum á Íslandi höfðinglega gjöf til að styrkja undirstöðu starfseminnar. Fræið sem sáð var árið 1976 hefur blómgast og náð að dreifa sér um allt landið, líkt og fallegir akrar.

Hafðu þökk fyrir Richard MacCambly.

Mynd frá kosningu nýs ábóta í klaustrinu þann 23. júlí 2020. Richard er í annari röð, annar frá vinstri.